Kristinfræðikennsla í skólum?

Ég gekk í barna- og gagnfræðaskóla á 8. áratugnum.  Þá þótti kristinfræðikennsla vera sjálfsagður hluti skólastarfsins.  Ég man að með mér í bekk var drengur, sem kom úr fjölskyldu sem tilheyrði Vottum Jehóva.  Hann þurfti ekki að sitja í kristinfræðitímum í skólanum og ég man aldrei eftir neinum vandamálum tengdum því, né að hann væri eitthvað sérstaklega utanveltu í bekknum af þessum sökum.  Þvert á móti höfðum við hin börnin alveg skilning á því, af hverju þetta væri svona.  Hvað hefur breyst frá þessum tíma?  Af hverju sjá svona margir ofsjónum yfir því, þó fræðsla um kristna trú sé stunduð í grunnskólanum okkar?

Þau rök sem heyrast helst gegn kristinfræðikennslu eru, að það séu ekki öll börn kristinnar trúar, að trúarbrögð séu ekki hlutverk ríkisrekins grunnskóla og þessi kennsla sé trúboð. 

Mér finnst það einmitt vera hlutverk skólans, að stunda trúarbragðakennslu.  Trúfrelsi - eins og allt annað valfrelsi - er einmitt best borgið með því að einstaklingurinn hafi þekkingu.  Þekkingu til að geta valið og hafnað.  Það mætti alveg kenna um önnur trúarbrögð, en áherslan yrði eðlilega lögð á kristna trú, því það er jú okkar trú hérna á Íslandi.  Okkur þykir sjálfsagt að kenna Íslandssögu í skólanum, þó sá hluti mannkynssögunnar sé nauðaómerkilegur svona út frá sagnfræðilegu sjónarmiði séð.  Okkur þykir það sjálfsagt, af því að Íslandssagan er hluti af okkar arfleifð.  Hluti af okkur sjálfum.  Því er hlutfallslega miklum tíma eytt í þennan hluta sögukennslunnar, miðað við aðra merkilegri sagnfræði.  Eins er það með kristna trú.  Hún er okkar og hluti af okkar menningu.  Þessvegna ætti það að vera alveg jafn sjálfsagt að henni yrði gert hærra undir höfði miðað við önnur trúarbrögð, eins og Íslandssögunni miðað við aðra sagnfræði.

Rökin um að kristinfræðikennsla sé trúboð, vísa ég algjörlega heim til föðurhúsanna.  Ég man aldrei eftir því frá mínum árum í grunnskóla, að okkur væri innrætt það eitthvað sérstaklega að við yrðum að taka Jesú Krist inn í líf okkar til að öðlast sáluhjálp og til að lenda ekki í helvíti.  Þarna var einungis um að ræða sögur úr Biblíunni (sumir kalla það lygasögur) sem okkur var veitt fræðsla um.  Ef andstæðingar kristinfræðikennslu vilja tala um innrætingu, þá skulum við tala um fleiri fög grunnskólans.  Á ég að taka börnin mín úr samfélagsfræðitímum, af því að sumt sem kennt er, er lygi að mínum dómi?  Ætti t.d. að banna, að börnum væru kenndar grundvallarstefnur stjórnmálaflokka, af því að sumum þættu einhverjar þeirra byggðar á algjörri lygi og blekkingu?  Það er hægt að færa rök fyrir því, að við búum í gervilýðræði.  Ætti þá að banna grunnskólunum að kenna börnum að Ísland sé þingbundið lýðveldi? 

Trúarbrögð eru stór hluti mannlegs samfélags.  Það er því óafsakanlegt að kenna þau ekki í grunnskóla.  Ég hef alltént aldrei á minni lífsgöngu hitt nokkurn mann, sem telur sér hafa orðið meint af að læra Biblíusögur í barnaskóla. 


Utangarðsmenn og íbúalýðræði.

Ég hef síðustu daga verið að hugsa um viðbrögð íbúa við Njálsgötuna, eftir að fréttir um að opna ætti heimili í götunni fyrir utangarðsmenn, birtust í fjölmiðlum.  Ég hélt alltaf að íbúalýðræði væri undantekningalaust af hinu góða.  Ég er kominn á aðra skoðun, eftir að hafa séð þessi viðbrögð.  Íbúalýðræði verður að vera byggt á þekkingu og upplýsingum. 

Það er ekkert, sem bendir til þess, að nýir íbúar muni verða til ama og óþæginda.  Þvert á móti.  Þegar frumþörfum einstaklingsins er fullnægt, verður ótrúleg breyting á honum.  Til batnaðar.  Reglulegar máltíðir og öruggt húsaskjól gera kraftaverk.  Heimilið mun væntanlega verða tengt við Velferðarsvið Reykjavíkur og við geðheilbrigðiskerfið.  Ef einhverjir hinna væntanlegu íbúa munu eiga við geðræn vandamál að stríða, mun því greining geðlæknis og rétt lyfjagjöf veita lausn.  Ekki aðeins viðkomandi íbúa, heldur líka aðstandendum og þjóðfélaginu öllu. 

Ég skil þessvegna ekki alveg þessi viðbrögð íbúanna við Njálsgötu.  Þetta er kannski bara ekkert íbúalýðræði, heldur fordómafull uppþot, byggð á algjörri vanþekkingu?    


Reykingabann.

Jæja, nú eru nýju fasistalögin brostin á.  Reykingalögin. Það er sama frá hvaða sjónarhorni horft er á þessa lagasetningu; fasismi er alltaf það orð sem verður niðurstaðan.

Í grunninn á réttur þess reyklausa að vera hærri rétti þess sem reykir.  Um það geta flestir verið sammála.  Þessvegna er sjálfsagt mál, að banna reykingar á stöðum sem fólk verður á einhverjum tímapunkti að sækja, eins og á sjúkrahúsum, í bönkum o.þ.h. stöðum.  Í flugvélum og rútum er líka sjálfsagt að banna reykingar, af skiljanlegum ástæðum.

Þegar kemur að börum og kaffihúsum, horfir málið hinsvegar allt öðruvísi við.  Málið er þetta:  Ef svipuð lagasetning hefur tekist svona vel í nágrannalöndunum, þá segir það okkur einungis, að reyklaus kaffihús bera sig.  Þá er ekkert því til fyrirstöðu, að vertar ákveði sjálfir hvort þeir leyfi reykingar á sínum stöðum eða ekki.  Reyklaus kaffihús ættu því að verða blómlegur "bissness," ekki satt?  Ef reyklaus kaffihús bera sig hinsvegar ekki, þá er verið að rústa heilli atvinnugrein og lögin þ.a.l. hin örgustu ólög.  Spurningin er bara, af hverju allar tilraunir með rekstur á reyklausum kaffihúsum hafi mistekist hingað til.

Það eina sem gæti mögulega afsakað þessa lagasetningu, eru vinnuverndunarsjónarmið.  Að vernda starfsfólk þessara staða fyrir tóbaksreyk.  Það fellur þó fljótlega um sjálft sig.  Með sömu rökum væri varla stætt á öðru, en að banna alveg sölu á öllu tóbaki í landinu.  Og þeir stjórnmálamenn, sem þykjast hafa skreytt sig með fjöður í hattin með þessum lögum, ættu að byrja á heildstæðri vinnuverndunarstefnu.  Kárahnjúkar væru góð byrjun. 

Við viljum flest gera veg reykinga sem minnstan, hvort sem við reykjum eða ekki.  Fæst okkar sem reykjum, viljum t.d. sjá börnin okkar apa þennan ósið upp eftir okkur.  En að nota "boð og bönn" aðferðina, virkar einfaldlega ekki.  Það verður að byrja á réttum enda.  Hvernig væri, að byrja á því að nota þá lagasetningu sem fyrir er?  T.d. að beita viðurlögum við þá, sem auglýsa bjór og áfengi?  Það eru ekki margir stjórnmálamenn, sem gera athugasemdir við mjög augljósa markaðssetningu áfengis, sem beint er gegn óhörðnuðum unglingum.  Hvað verður þess þá langt að bíða, að tóbaksinnflytjendurnir byrji líka?

Að lokum:  Á meðan reykingar eru lögleg iðja, geta reyklausir ekki gert skýlausa kröfu um að fá að ganga hvert sem er, hvenær sem er og krefjast þess að reykingar verði bannaðar.   

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband