Kristinfræðikennsla í skólum?

Ég gekk í barna- og gagnfræðaskóla á 8. áratugnum.  Þá þótti kristinfræðikennsla vera sjálfsagður hluti skólastarfsins.  Ég man að með mér í bekk var drengur, sem kom úr fjölskyldu sem tilheyrði Vottum Jehóva.  Hann þurfti ekki að sitja í kristinfræðitímum í skólanum og ég man aldrei eftir neinum vandamálum tengdum því, né að hann væri eitthvað sérstaklega utanveltu í bekknum af þessum sökum.  Þvert á móti höfðum við hin börnin alveg skilning á því, af hverju þetta væri svona.  Hvað hefur breyst frá þessum tíma?  Af hverju sjá svona margir ofsjónum yfir því, þó fræðsla um kristna trú sé stunduð í grunnskólanum okkar?

Þau rök sem heyrast helst gegn kristinfræðikennslu eru, að það séu ekki öll börn kristinnar trúar, að trúarbrögð séu ekki hlutverk ríkisrekins grunnskóla og þessi kennsla sé trúboð. 

Mér finnst það einmitt vera hlutverk skólans, að stunda trúarbragðakennslu.  Trúfrelsi - eins og allt annað valfrelsi - er einmitt best borgið með því að einstaklingurinn hafi þekkingu.  Þekkingu til að geta valið og hafnað.  Það mætti alveg kenna um önnur trúarbrögð, en áherslan yrði eðlilega lögð á kristna trú, því það er jú okkar trú hérna á Íslandi.  Okkur þykir sjálfsagt að kenna Íslandssögu í skólanum, þó sá hluti mannkynssögunnar sé nauðaómerkilegur svona út frá sagnfræðilegu sjónarmiði séð.  Okkur þykir það sjálfsagt, af því að Íslandssagan er hluti af okkar arfleifð.  Hluti af okkur sjálfum.  Því er hlutfallslega miklum tíma eytt í þennan hluta sögukennslunnar, miðað við aðra merkilegri sagnfræði.  Eins er það með kristna trú.  Hún er okkar og hluti af okkar menningu.  Þessvegna ætti það að vera alveg jafn sjálfsagt að henni yrði gert hærra undir höfði miðað við önnur trúarbrögð, eins og Íslandssögunni miðað við aðra sagnfræði.

Rökin um að kristinfræðikennsla sé trúboð, vísa ég algjörlega heim til föðurhúsanna.  Ég man aldrei eftir því frá mínum árum í grunnskóla, að okkur væri innrætt það eitthvað sérstaklega að við yrðum að taka Jesú Krist inn í líf okkar til að öðlast sáluhjálp og til að lenda ekki í helvíti.  Þarna var einungis um að ræða sögur úr Biblíunni (sumir kalla það lygasögur) sem okkur var veitt fræðsla um.  Ef andstæðingar kristinfræðikennslu vilja tala um innrætingu, þá skulum við tala um fleiri fög grunnskólans.  Á ég að taka börnin mín úr samfélagsfræðitímum, af því að sumt sem kennt er, er lygi að mínum dómi?  Ætti t.d. að banna, að börnum væru kenndar grundvallarstefnur stjórnmálaflokka, af því að sumum þættu einhverjar þeirra byggðar á algjörri lygi og blekkingu?  Það er hægt að færa rök fyrir því, að við búum í gervilýðræði.  Ætti þá að banna grunnskólunum að kenna börnum að Ísland sé þingbundið lýðveldi? 

Trúarbrögð eru stór hluti mannlegs samfélags.  Það er því óafsakanlegt að kenna þau ekki í grunnskóla.  Ég hef alltént aldrei á minni lífsgöngu hitt nokkurn mann, sem telur sér hafa orðið meint af að læra Biblíusögur í barnaskóla. 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 identicon

Veit ekki hversu langt er síðan þú gekst í skóla, en svona er að vera ekki kristinn í í skólanum í dag. Finnst þér þetta í lagi?

http://astan.blog.is/blog/astan/entry/227324/

Ásta Norrman (IP-tala skráð) 3.6.2007 kl. 19:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband